Saga Punktsins

Í janúar 1994 boðaði Akureyrarbær atvinnulaust fólk í bænum til fundar í Íþróttahöllinni. Tilefnið var að kanna áhuga á stofnun alhliða handíðaverkstæðis til tómstundaiðju með kennslu/leiðbeiningum fyrir atvinnulaust fólk. Til fundarins mættu liðlega 50 manns, undirtektir voru góðar og fundurinn kaus 10 manna nefnd úr sínum röðum til að vinna að málinu með stuðningi ýmissa aðila hjá Akureyrarbæ. Hópnum var afhent húsnæði á Gleráreyrum þar sem skóverksmiðjan Strikið hafði verið til húsa. Strax var hafist handa við að safna áhöldum og öðru sem þurfti til, til að koma upp vinnuaðstöðu.  Staðnum var gefið nafnið Punkturinn.
Með ótrúlega góðum stuðningi og velvilja stofnana, félaga, og fyrirtækja og ekki síst einstaklinga tókst að fá að láni öll helstu tæki sem þurfti. Hvar sem borið var niður var einstökum velvilja og hlýhug að mæta. Einnig bárust fjárstyrkir frá opinberum aðilum svo sem Akureyrarbæ, ráðuneytum og verkalýðsfélögum. Á fyrsta starfsári tók Akureyrarbær alfarið við rekstrinum og var íþrótta- og tómstundaráði falið að hafa yfirumsjón með uppeldinu. Í dag hefur starfsemin þróast út í að það að þjóna öllu því fólki sem áhuga hefur á hverskonar handverki og tómstundavinnu. Áfram er unnið í anda þeirrar hugsjónar sem upphaflega var lagt af stað með, þ.e. að gefa fólki möguleika á því að læra eða finna upp hjá sér sjálfu ákveðna verkþætti og nýta sér þá.
Punkturinn hefur tileinkað sér eitt ákveðið verkform öðru fremur og það er að viðhalda gamalli verkþekkingu. Sú vinna er mjög mikilvæg í samfélagi eins og okkar þar sem breytingar eru svo örar að það getur reynst erfitt að halda við þeirri verkþekkingu sem var notuð fyrir ekki svo margt löngu.
Handverks- og tómstundamiðstöðin Punkturinn hefur sannað tilverurétt sinn í þeirri miklu flóru sem tómstundastarf á Akureyri býður upp á.
Starfsemin hefur byggst upp á fjórum grunnþáttum sem eru vefnaður, smíðar, saumaskapur og leirmótun. Auk þess hafa verið haldin mörg námskeið í ýmsun list- og handverksgreinum. Það er stefna staðarins að sköpunargleðin sitji í fyrirrúmi. Látum tuskurnar verða að litfögrum mottur, viðarkubbinn að fallegri skál. Mótum gljáfægðan vasa úr gráum leirnum og sníðum klæðin í kjóla og kápur eða jakka og buxur.

Share